Líflandspróf Vorstehdeildar úrslit

Þá er Líflands veiðiprófi Vorstehdeildar lokið.

Smá samantekt um prófið.

Það má segja að opni flokkurinn hafi fengið á sig allskonar veður. Lítið var um rjúpu framan af prófi en rofaði svo sannarlega rjúpnalega til þegar líða tók á daginn og flestir ef ekki allir hundar áttu séns á fugli.

3.hundar af 8.náðu einkunn sem verður að teljast gott hlutfall ekki síst þegar mið er tekið af aðstæðum.

Kaldbaks Orka, Enskur Setter landaði 1.einkunn og var einnig valin besti hundur prófs.

Óskum eiganda og leiðanda hennar Eyþóri Þórðarsyni til hamingju með frábæran árangur.

Milpoint Loki, Pointer landaði 2.einkunn

Óskum eiganda og leiðanda hans Jóni Ásgeiri Einarssyni til hamingju með frábæran árangur.

Steinahlíðar Blökk, Enskur Setter landaði 2.einkunn.

Óskum eiganda og leiðanda hennar Páli Kristjánssyni til hamingju með frábæran árangur.

Unghundaflokkur var svo haldinn í dag

Unghundarnir fengu mun betra veður en opni flokkurinn í gær. Af tvennu illu var það gott því það er alltaf vont að vera með unga hunda í fræsingsveðri í langan tíma.

Mun meira var af rjúpu á svæðinu í dag og var nánast fugl í hverju sleppi eftir fyrsta slepp og áttu allir séns á fugli.

3.unghundar af 7 lönduðu einkunn sem verður einnig að teljast mjög gott.

Arkenstone með Allt á Hreinu/Erró, Snögghærður Vorsteh landaði 2.einkunn og var valinn besti hundur prófs.

Óskum eiganda hans Hildu Björk Friðriksdóttur og leiðanda hans Jóni Valdimarssyni til hamingju með frábæran árangur.

Ribasvarri’s Winston, Enskur Setter landaði 2.einkunn.

Óskum eiganda og leiðanda hans Jóni Viðari Viðarssyni til hamingju með frábæran árangur.

Fasanlia’s DL Fannar, Enskur Setter landaði 3.einkunn.

Óskum eiganda og leiðanda hans Ólafi Erling Ólafssyni til hamingju með frábæran árangur.

Mikil og almenn ánægja ríkti um prófið og höfum við heyrt víða að mjög góður andi hafi verið í hópnum báða dagana sem mjög gaman er að heyra.

Við þökkum þeim sem skráðu í prófið og vonumst til að sjá ykkur í sem flestum viðburðum á vegum deildarinnar. Deildin getur ekki styrkst og eflst nema fyrir ykkur og vonandi miklu fleiri í framtíðinni.

Við verðum þó að segja frá einu sem er ekkert launungarmál.

Formáli.

Það vita flestir að ekki tókst að manna stjórn á ársfundi deildarinnar þar sem engin bauð sig fram í stjórn.

Haldin var annar ársfundur með einu fundarefni, kosning til stjórnar. Ef ekki næðist að manna stjórn yrði deildin lögð niður. Það var lagt nokkuð fast að okkur sem nú eru í stjórn að bjóða fram. Við báðumst undan því og sögðum nei.

Það var ekki fyrr en á leiðinni á seinni ársfundinn sem ákvörðun var tekin um framboð ef engin annar myndi bjóða fram.

Núverandi stjórn var alvarlega að hugsa um að slá þetta próf af. Við værum að koma 5.ný inn í stjórn og ekki inni í einu einasta máli og ætluðum að gefa okkur tíma til að vinna okkur inn í hluti og móta stefnu deildarinnar.

Þá að því sem er aðalatriðið.

Þau Arna Ólafsdóttir og Friðrik Þór Hjartarson komu að máli við okkur og buðust til að vera prófstjórar prófsins. Þau myndu bara sjá um allt sem þyrfti að gera varðandi prófið svo það gæti farið fram.

Þau gjörsamlega tóku þetta verkefni í fangið og útkoman var sú sem þið sáuð um helgina. Algjörlega frábær og hnökralaus prófstjórn sem sómi er af.

Án þeirra hefði þetta próf ekki orðið að veruleika og þó þetta próf hafi verið haldið undir nafni Vorstehdeildar þá er heiðurinn algjörlega þeirra ásamt góðum dómara prófsins Einari Erni Rafnssyni.

Takk innilega fyrir alla hjálpina, þið voruð/eruð frábær ❤

Og að sjálfsögðu kærar þakkir til stuðningsaðila deildarinnar sem er Lífland sem selur alveg helling af eðal vörum fyrir voffana okkar.

Og svo Innnes sem styrkir okkur alltaf með gæða Famous grouse viskí til að gefa í verðlaun 🙂

Já og svo heyrðum við af því að þau Sigríður og Eyþór hafi mætt upp í kot í dag með alveg svakalega góðar pönnukökur sem góður rómur var gerður af. Einn sagði að það hefði sko verið kærkomið að fá pönnsur þegar hann mætti í kotið eftir daginn á heiðinni 🙂

Takk Sigríður og Eyþór ❤

Nokkrar myndir frá helginni:

Þessi færsla var birt undir Forsíðufrétt. Bókamerkja beinan tengil.