Samskipti við stjórn HRFÍ

Stjórn þykir rétt að halda deildarmeðlimum og félagsmönnum upplýstum um vinnu sem fer fram án þess að mikið beri á.
Í ágúst er sent á deildirnar í Tegundarhóp 7 eftirfarandi bréf :

„Sælar ágætu deildir í tegundarhópi 7,

Stjórn félagsins samþykkti nú í ágúst reglur um menntun fuglahundadómara og hafa reglurnar verið birtar á vefnum. Þær má nálgast hér: http://www.hrfi.is/uploads/2/2/3/3/22333014/reglur_um_menntun_fuglahundad%C3%B3mara_%C3%A1g%C3%BAst_2018.pdf

Í reglunum kemur eftirfarandi fram um dómaranefnd;

Dómaranefnd annast skipulag, undirbúning og menntun dómara samkvæmt reglum þessum.  Í dómaranefnd sitja þrír fulltrúar, þar af tveir tilnefndir af dómararáði og einn af stjórn HRFÍ að fengnum tillögum deilda í tegundahópi 7.  Fulltrúar dómaranefndar skulu vera dómaramenntaðir og hafa langa og víðtæka reynslu af dómgæslu.

Ég vildi því kalla eftir tillögum ykkar um fulltrúa þann sem tilnefndur verður af stjórn HRFÍ í Dómaranefnd og óska ég eftir ykkar tillögum sem allra fyrst.

Með kveðju, Guðný“

Þarna eiga deildirnar kost á því að tilnefna einn fulltrúa af þrem sem kæmi inn í Dómaranefnd. Gott mál, enda eitthvað sem var horft til þegar umræddar reglur voru lagðar fyrir fulltrúa deildanna til yfirlestrar og álitsgjafar. Samanber þennan póst þegar blásið var til þeirrar vinnu:

„Sæl,

 Til samræmis við ákvörðun stjórnar Hrfí hef ég sem fulltrúi stjórnar og Svafar Ragnarsson, veiðiprófsdómara skoðað reglur um nám veiðiprófsdómara í TH 7 og höfum við sameiginlega unnið að tillögum um breytingar á reglunum.  Þær tillögur hefur Svafar kynnt á fundi með dómararáði en sem næsta skref langar okkur að kynna tillögurnar fyrir fulltrúum stjórna deildanna áður en lengra er haldið.  

 Við óskum eftir að deildir tilnefni hver einn fulltrúa til að funda með okkur á skrifstofu félagsins,  fimmtudaginn, 11. janúar n.k. kl. 18. Þess er óskað að staðfest verði nafn fulltrúa og um mætingu á fundinn eigi síðar en 8. janúar.

 Séu einhverjar frekari upplýsingar ekki hika við að hafa samband.

 Með góðri kveðju og óskum um gleðilega hátíð,

Herdís Hallmarsdóttir, formaður.“

En aftur að tilnefningunni.
Vorstehdeild, FHD og DESI fóru saman yfir málið og var niðurstaðan sú að tilnefna Gunnar Gundersen. Vorstehdeild sendi póst þess efnis að við tilnefndum Gunnar og Bergþór Antonsson til vara:

 

„Sæl Guðný,
stjórnin er búin að funda og við leggjum til eftirfarandi:

Stjórn Vorstehdeildar leggur til að stjórn HRFI tilnefni Gunnar Gundersen sem fulltrúa dómaranefndar, enda með mjög langa og víðtæka reynslu af dómgæslu.
Til vara Bergþór Antonsson.

Kær kveðja 
Stjórn Vorstehdeildar“

og FHD sendi svo einnig póst fyrir hönd okkar allra sem við birtum hér:

„Sæl Guðný 

Stjórn FHD leggur til að Gunnar Gundersen hann hefur langa og víðtæka reynslu sem dómari bæði í Noregi og á Íslandi. Hann hefur reynslu bæði af heiða- og sækiprófum auk þess að hafa verið leiðbeinandi dómaranema í áraraðir.  .Hann er virkur veiðimaður, kennari og dómari, hefur tekið þátt í mörgum veiðiprófum í gegum árin og náð frábærum árangri. Gunnar hefur verið formaður NPK og NVK. Hann var sæmdur gullmerki norska vorsteh klúbbsins.

Ég var í sambandi við formenn Vorsteh deildar og Ensk setter um helgina og voru deildirnar sammála um að mæla með Gunnar Gundersen og Bergþóri Antonsyni til vara.

Vinamlegast staðfestið móttöku.

Bestu kveðjur
Haukur Reynisson“

Svona á þetta að vera !
Allir að vinna saman.
Sumsé kallað eftir fulltrúa frá deildum til að ræða og leggja blessun yfir nýjar dómaranámsreglur. Svo er farið eftir reglunum og kallað eftir tillögum frá deildunum í Tegundarhóp 7 um fulltrúa HRFÍ í Dómaranefnd, enda verið að mennta dómara fyrir deildirnar í tegundarhópnum og ekki óeðlilegt að þær hafi eitthvað með það að gera hverjir hafi umsjón með menntun þeirra dómara.
Nú svo vinna deildirnar saman, ræða málin og komast að sameiginlegri niðurstöðu um sín mál og senda inn til stjórnar þær tillögur. Vel gert !

En svo kemur niðurstaðan. Niðurstaða sem er alveg í stíl við annað undanfarin ár:

„Ágætu deildir,

Við þökkum tilnefningar þær sem bárust um mögulega nefndarmenn í nefnd þá sem mun sjá um dómaranám í TH7.  Eins og fram hefur komið var leitað til NKK og í framhaldi Fuglehundklubbenes Forbund og biðlað til þeirra um samstarf og aðstoð við uppbyggingu námsins hér á landi.  FKF svaraði því til að þau væru mjög jákvæð fyrir áframhaldandi góðu samstarfi við kollega sína í TH7 hér á landi og töldu sig geta aðstoðað bæði við innihald námsins sem og praktískar hliðar þess.  Því tækifæri tökum við að sjálfsögðu fagnandi. Í bréfi þeirra var þess jafnframt getið að mjög reyndur dómari Andreas Bjørn sem mörg ykkar þekkja væri tilbúinn að taka sæti í nefndinni og að þeim þætti skynsamlegt að einungis einn aðili þeirra megin væri tengiliður NKK við íslenska námið. Andreas var einnig einn af þeim sem tilnefndur í þeim tilnefningum sem bárust frá deildum.  Samstarf við FKF og NKK þýðir að nýjir möguleikar opnast fyrir íslenska dómaranema, til dæmis verður hægt að skipta upp náminu í sæki eða vettvangsvinnu sé áhugi fyrir því en ekki skylda að takast á við hvortveggja í einu eins og áður einnig opnast sá möguleiki leita til FKF til að fá norska dómara sem leiðbeinendur.  Það eru því spennandi tímar framundan og ekki ástæða til annars en að hlakka til samstarfsins við FKF og NKK.
Eftirtaldir aðilar voru skipaðir í nefndina á fundi stjórnar þriðjudaginn : frá stjórn HRFÍ: Andreas Bjørn (FKF, NKK). Frá dómararáði: Svafar Ragnarsson og Egill Bergmann.

Ef þið hafið spurningar um ofangreint ekki hika við að hafa samband.

Með kveðju, Guðný“

Alveg með ævintýralegum ólíkindum. Enn og aftur eru deildirnar dregnar á asnaeyrunum. Látnar leggja í vinnu við að koma að regluverki. Velja sinn fulltrúa … sem er reyndar fulltrúi stjórnar … sem ætti auðvitað að fara eftir vilja deildanna sem málið varðar, og svo er það allt blásið út af borðinu, lýðræðinu og samvinnu deilda með, og leikritið fullkomnað með því að segja okkur hvernig þetta átti allan tíman að vera og niðurstöðunni troðið ofan í kokið á okkur.

Þetta snýst ekkert um Andreas … þetta snýst um réttlæti og vinnubrögð. Það er auðvelt að lesa í hvernig þetta kom til ef menn vilja fara þangað, en við látum þetta gott heita hér.

Stjórn.

PS:
Það er nú rétt að setja hér inn skjáskot af tveim póstum sem sýna enn betur fram á fáránleika málsins.
Það var sumsé 19 júní sem þeir norsku sendu bréf til HRFI, augljóslega með vitneskju um vilja einhverra frá Íslandi.
Þetta bréf, alveg óvart, barst ekki til stjórna deilda Grúbbu 7.  !!!
Svo þann 8. ágúst , einum og hálfum mánuði síðar, kemur þessi póstur frá HRFÍ þar sem deildirnar eru beðnar að tilnefna fulltrúa !

Þá var stjórn HRFI og Dómararáð búin að ákveða hvort eð er hvern ætti að taka þarna inn, og sú vinna sem fór fram þar á eftir algerlega tilgangslaus og mikið leikrit.
Svo er reynt að klóra yfir allt með þeirri útskýringu að ef HRFI hefðu ekki samþykkt þennan aðila að þá hefðu NKU og FKF tekið því þannig að HRFI vildi ekki samstarfið sem HRFI var að biðja um ?!?!
Það hefði auðvitað verið auðveldast í heimi að segja þeim norsku hvernig reglurnar um þetta á Íslandi eru,  og biðja þá um að hinkra aðeins við þangað til tilnefningarnar hafa skilað sér í hús.
Bréf frá FKF received_250677228974324
 

 

Þessi færsla var birt undir Forsíðufrétt. Bókamerkja beinan tengil.